Það elska allir Nutella. Verst hvað það er stútfullt af sykri. Þetta dásamlega súkkulaðismjör er vissulega hitaeiningaríkt en inniheldur engan viðbættan sykur og fullt af hollri fitu, steinefnum, vítamínum og andoxunarefnum. Döðlurnar eru einnig trefjaríkar og góðar fyrir meltinguna. Ég get með sanni sagt að ég hef ekki enn fundið manneskju sem elskar ekki þetta súkkulaðismjör. Það er dásamlegt sem krem, í eftirrétti eða til að dýfa jarðaberjum ofan í. Nú eða bara skeið! Ekki er verra að það inniheldur aðeins fimm hráefni! En ég vara ykkur við: Þetta er sem áður segir hitaeiningaríkt. Ef þú rankar við þér um miðja nótt inni í ísskáp með skeið, þá skaltu taka góðan göngutúr daginn eftir! Og skilja krukkuna eftir heima.
- 10 ferskar steinhreinsaðar döðlur (eru geymdar í kæli í verslunum)
- 3 msk lífrænt heslihnetusmjör frá Rapunzel (Það verður að vera þetta smjör. Þú skilur mig þegar þú smakkar það.)
- 3 msk hreint lífrænt, fituminna kakó frá Rapunzel (nóg fita í hnetusmjörinu)
- 2-3 msk soðið vatn eða hrís-, hesilhnetu-, kókos- eða möndlumjólk til drykkjar (í fernu)
- Salt á hnífsoddi
- Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél og malið uns silkimjúkt.
- Geymið í krukku inni í ísskáp.