Silkimjúk berjabomba

Ég elska ostakökur og ferskar berjatertur. Sérstaklega með glasi af köldu ávaxtaríku hvítvíni eða rjúkandi kaffibolla. Þessi terta er ein af mínum uppáhalds og hefur verið í þróun um langt skeið. Þrátt fyrir að vera sykurlaus er þessi elska mjög vinsæl á heimilinu og klárast í öllum boðum. Jafnvel miðaldra sykurfíklar og geðvondir unglingar sleikja út um! Ekki skemmir fyrir að hún er pökkuð af hollri fitu, andoxunarefnum og steinefnum. En passaðu að missa ekki andlitið ofan í kökuna því eins og flestar hráfæðistertur er þessi kaka mjög hitaeiningarík þó þetta séu „hollar“ hitaeiningar sem líkaminn nýtir vel. Og ekki örvænta – þessi uppskrift er auðveld. Ég lofa!

Hráberjaterta

Botn

  • 2 dl kókosmjöl
  • 2 dl sesamfræ
  • 200 gr döðlur
  • 1 dl gojiber eða þurrkaðar apríkósur
  • 1 msk ósætt kakó
  • 1/3 tsk sjávarsalt

Fylling

  • 250 gr kasjúhnetur lagðar í bleyti í amk 4 klst – verða ummálsmeiri eftir útvötnun
  • 2 dl bráðin kókosolía
  • 15 –20 dropar hindberjastevía (t.d. frá Via Health)
  • ¼ tsk sjávarsalt
  • 1 tsk góð vanilla
  • 350 gr frosin ber eftir smekk – ég nota bláber (jarðaber og hindber)
  • 3 dl kókosmjólk úr fernu
  • 1 tsk sítrónu- eða límónusafi
  • 1 dl hunang (eða hreinn sykurlaus appelsínu- eða berjasafi ef þú vilt hafa þetta alveg sykurlaust)

Botn

  1. Leggðu 200 gr af döðlum og 1 dl af gojiberjum eða apríkósum í volgt vatn í 10 mín.
  2. 2 dl af sesamfræjum og 2 dl af kókosmjöli fara í matvinnsluvél og malað þar til fínt.
  3. Vatninu er hellt af ávöxtunum og öllu svo blandað saman í matvinnsluvél.
  4. Salti og kakói bætt við. Ef deigið loðir illa saman skaltu bæta við 1 – 2 msk af vatni.
  5. Deiginu er svo þrýst niður í 23 cm smellumót eða sílíkonmót. Einnig er hægt að nota lítil möffins sílíkonmót ef þú vilt gera margar litlar kökur.
  6. Settu mótið inn í frysti á meðan þú útbýrð fyllinguna.

Fylling

  1. Helltu vatninu af kasjúhnetunum. Hneturnar fara í blender eða matvinnsluvél ásamt kókosolíunni og kókosmjólkinni og blandað þar til silkimjúkt. Því næst fer restin af innihaldsefnunum út í og blandað vel.
  2. Helltu blöndunni yfir botninn og láttu tertuna stífna í frysti í lágmark 2 klst.

Tertuna er best að geyma í frysti og taka út 30 mínútum áður en hún er borin á borð.

 

12087836_10153685033004252_8139542589341327887_o

Myndir: Íris Ann

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *